miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Styttist í Hyderabad


Nú eru bara tveir dagar í brottför - var að útrétta í dag og ætla svo að pakka í kvöld og vera með allt tilbúið því planið er að fara á tónleika með lyambiko sem er jazzsöngkona, mjög góð.

Búið að spá 30 stiga hita og glampandi sól næstu daga svo það er eins gott að pakka niður sumarfötum - frekar skrýtið. Veit eiginlega ekki hvað ég á að taka með mér, ég man síðast þegar ég fór tók ég með mér hvítar og bleikar náttbuxur frá mömmu sem ég notaði dagsdaglega þar til ég fann mér skárri flík. Jesús! Í þessu gekk ég fyrstu vikurnar, og elin í öðrum bláum náttbuxum, hahahaha. Held það passi ekki alveg á ráðstefnuna. Held ég sleppi því líka í þetta sinn að klippa á mér hárið og lita það svart. Hef sjaldan verið með eins vonda klippingu og ég var með á Indlandi í den. Fyrir átta árum! Ætla líka að leyfa mér meiri lúxus, borða á fínum veitingastöðum - borða borða borða, borgin er víst þekkt fyrir ótrúlega góðan mat, blanda af arabískum og indverskum mat með sérstökum kryddum frá svæðinu. Ætla að versla krydd - já, og Nandini indversk vinkona mín hér sagði mér í morgun að það er mjög fínt að versla þarna. Jólagjafirnar í ár, mjög gott.

Keypti mér mp3 spilara og ný heyrnatól - tryggð bak og fyrir - komin með dollara í veskið svo ég get bara farið að koma mér af stað. Jibbíjei.

Ljúfar stundir.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Skemmtilegt próf

Nú er ég búin að láta pósterinn minn í hendur fagfólks í multimedia deildinni svo ég er ekki mjög upptekin, þar af leiðandi hafði ég tíma til að taka þetta skemmtilega próf á bbc síðunni, próf um það hvort þú hugsar meira eins og maður eða kona. Ég skorað um 25 stig konu-megin! Meðalskor kvenna eru 50 stig konu-megin og hjá körlum 50 stig karla-megin.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Google talk og Gmail

Ég mæli eindregið með googlemail og googletalk - sérstaklega þar sem ég get ekki notað msn í vinnunni þá væri afar gaman að fá e-a yfir á googletalk. Þetta er mjög þægilegt mail, mjög mikið pláss og maður þarf ekkert að flokka póstinn frekar en maður vill því það er mjög auðvelt að leita af lykilorðum í pósti (hvort sem það er í fyrirsögn, texta eða hvað). Skellið ykkur á gmail, þá get ég líka spjallað við ykkur ;)

mp3 spilari

Nú er nákvæmlega vika í brottför. Um leið og ég klára pósterinn get ég leyft mér að verða rosa spennt, nú er ég aðallega að hugsa um þennan blessaða póster. Mig langaði að spyrja ykkur kæru lesendur hvort þið getið ráðlagt mér með mp3 spilara? Ég er búin að gefast upp á ipodnum mínum, batteríið dugar bara í 15-20 mín, ég fór með hann á verkstæði en þeir vildu ekki gera við hann, sögðu að ég þyrfti að senda hann til Bandaríkjanna og borga morðfjár fyrir. Djöfuls drasl. Gef skít í ipod-a. Amk gömlu kynslóðina, vonandi eru þær nýju betri.

En nú langar mig að kaupa bara venjulegan mp3 spilara svo ég geti nú hlustað á tónlist á þessu langa ferðalagi - hvað er best að kaupa? Veit það e-r???

Um helgina er innflutningspartý hjá Tomi og Hernan, hlakka til. Svo á sunnudaginn verður haldið upp á Thanksgiving hér í vinnunni þar sem við höfum nokkra Ameríkana hér. Ætlum að elda kalkún og allt tilheyrandi. Eins gott að ég klári pósterinn í dag svo ég geti notið helgarinnar.

Góða helgi.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Derren Brown


Tjékkið á þessum gaur. Sean sýndi mér nokkur vídeóclip í morgun með þessum gaur - alveg ótrúlegt. En satt! Ótrúlegt hversu mikið það er hægt að spila með fólk, þetta er sálfræðingur (held ég) sem getur látið fólk gera hina ótrúlegustu hluti.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Fræga fólkið hjá Max Planck

Jæja, þá er blessuð greinin komin út sem kollegar mínir hafa verið að vinna að síðast árið. Og hvar birtist hún? Að sjálfsögðu í Nature. Á forsíðu Nature er mynd af mínum kæra kollega Tomislav frá Króatíu og Svante Paabo - hér til hliðar, tekin af Hannesi í helli í Króatíu þar sem Neandertalsbeinin fundust sem þeir notuðu til þess að raðgreina 1 milljón basapararöð úr beinunum. Í header á þessum pósti er linkur á Nature, en ég læt hér fylgja link með sem sýnir viðtöl við Adrian og Hannes og fl. góða menn sem skrifuðu pappírinn. Ég á fræga vini, liggaliggaló! Þetta er ótrúlega flott hjá þeim, fyllist stolti fyrir hönd þessara ungu vísindamanna sem eiga framtíðina fyrir sér - vildi að ég væri með svona flott verkefni! Efast um að litlu Philippseyingarnir mínir komist nokkurn tíma á forsíðu Nature. Erum að fara að drekka kampavín í tilefni dagsins (greinin kom út í dag) eftir klukkutíma. Passar líka vel við veðrið í dag, 16 stiga hiti og sól, einsog á góðum íslenskum sumardegi. Gó gó glóbalwarming. Líka hægt að lesa stutta og þægilega frétt um þetta HÉR.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Neandertal æði


Hér hjá Max Planck fást margir við rannsóknir á Neandertalsmönnum. Við erum með nokkrar beinagrindur (ekki heilar, en fullt af beinum) í kjallaranum og reglulega fer yfirmaður stofnunarinnar, Svante Paabo, til Evrópuríkja og sækir fleiri bein. Nú er planið hjá þeim kollegum mínum að raðgreina allt erfðamengi Neandertalsmanna - spurning hvenær það hefst. Ein spurning sem enn hefur ekki fengist svar við er hvort Neandertalsmenn og nútímamenn (homo sapiens) hafi blandast - þeas, átt afkvæmi. Engar sannanir hafa fundist fyrir því enn, svo það er almennt talið að nútímamenn hafi átt þátt í að útrýma Neandertalsmönnum. En nú hafa aðrir góðir vísindamenn greint frá því að þeir hafi fundið vísbendingar um það að nútímamaðurinn og Neandertalsmaðurinn hafi blandast. Hér vilja menn ekki gleypa svo auðveldlega við rannsókninni og halda því enn fram að það hafi engin blöndun átt sér stað. Lesið stutta frétt um þetta í New York Times (í header á þessu bloggi).

Neandertalsmenn eru í tísku í vísindunum um þessar mundir. Hér birta kollegar mínir hverja greinina á fætur annarri í Nature eða Science - allt um blessaðan Neandertalsmanninn. Svante Paabo var sá fyrsti sem raðgreindi ancient-DNA, svo þeir standa vel að vígi sem fá að vinna með hetjunni Paabo. Hannes er sennilega búinn að birta um 4 greinar nú þegar (Science, Nature), eftir fyrsta árið sitt sem doktorsnemi. Því hann er vinur Neandertalsmanna. Gott að þekkja þá.

mánudagur, nóvember 13, 2006


Hér breytist veðrið voða sjaldan. Það er sama veður í að minnsta kosti viku. Nú er búið að rigna í þrjá daga og það er ekkert lát á rigningunni. Úff hvað ég hlakka til að komast í hita og sól á Indlandi ;)

Helgin var fremur róleg, kíkti á tónleika á laugardaginn með hljómsveit sem ég man ekki hvað heitir en kollegi minn spilar á hljómborð í téðri sveit. Þetta var nýr staður, ótrúlega svalur - afar hrár, gæti séð fyrir mér að íslenskar listaspírur myndu slefa yfir slíkum stað.

Á sunnudaginn bauð Hannes fólki til sín í brunch - þangað mættu aðallega þjóðverjar svo þá er bara töluð þýska. Ég sendi Adrian sms og minnti hann á að koma - svo ég gæti nú talað kæru enskuna, og sem betur fer kom hann yfir, ég þoli ekki að vera í al-þýskum félagsskap. Já já, ég veit, ég þarf að fara að læra þetta blessaða mál. Annars komst ég að því á laugardaginn að ég er virkilega farin að taka þýskuna í sátt, mér finnst hún skemmtileg og hljóma vel (þegar fólk er ekki reitt, það er ekkert verra en að hlusta á reiða þjóðverja), og þegar söngkonan söng á ensku í stað þýsku fannst mér það bara ljótt. Miklu flottara á þýsku.

Allavega, planið á sunnudaginn var að spila sem mér leist nú helvíti vel á þar sem ég er mjög gefin fyrir það að spila. En þá fannst þjóðverjunum ansi sniðugt að spila mjög flókinn leik, útskýra hann á þýsku og allt snérist um að draga spjöld sem maður þurfti að lesa gaumgæfilega - á þýsku auðvitað. Ég og Adrian gáfumst snemma upp og læddumst frá spilaborðinu og lékum við Linus litla sæta í staðinn. Linus er sonur sambýlinga Claudieh, afar fallegur ungur drengur!

Nú er ég að undirbúa Indlandsferð, reyna að fá niðurstöður sem ég get sett á pósterinn og þá er ég reddí. Hlakka mikið til að fara, en ég held ég hlakki nú barasta jafn mikið til að koma heim um jólin :)

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Rætist úr druslunni...

Jæja, í kven-átaki mínu keypti ég mér skó í dag. Á ebay. Fyrsti hluturinn sem ég kaupi mér á ebay. Þeir kostuðu 45 evrur (eða ég bauð 45 evrur í þá), og nýjir kosta þeir 145$ í USA. Hvernig líst ykkur á? Kannski meiri sumarskór, EN - það er hægt að nota þá í partý ;)

mánudagur, nóvember 06, 2006

Leipzig drusla

Ég er orðin Leipzig drusla. Það er ekki annað hægt en að smitast af drusluskapnum þegar maður hefur búið í þessu umhverfi í rúmt ár. Þegar þorri kvenna málar sig hvorki né dressar sig upp fyrir partý, hvað þá annað, þá byrjar manni að standa á sama líka. Maður byrjar að fara í vinnuna í fötum sem maður hefði varla látið sjá sig í heima hjá sér á Íslandi. Maður er bara sáttur við að fara í sömu fötunum þrjá daga í röð í vinnuna liggur við og er næstum hættur að kíkja í spegil áður en maður fer út úr dyrum. Svo þegar maður fer í partý skiptir maður varla um föt lengur... þetta er agalegt. Mig langar ekki að vera Leipzig-drusla, mig langar að vera skvísa, og ekki sakaði ef ég væri örlítið kvenleg líka.

Áttaði mig á þessu þegar ég fór til Kaupmannahafnar þar sem mikið er um flottar og fínar stelpur, gellur - svaka skvísur. Elín og Agla voða sætar og miklar skvísur. Í fínum jökkum og fínum skóm. Ég er í sömu skóm og ég keypti mér með Auði í Edinborg síðasta haust. Sem ég gekk í í allan vetur. Þeir eru ekki lengur fínir, og verða seint taldir kvenlegir eða fallegir. Bara einfaldir lágir Doktor-Marteins skór sem eru að syngja sitt síðasta. Svo á ég camper skó svarta sem ég hef gengið í í tvö ár. Ekkert annað. Ég sver það, enga fína skó ef ég fer í partý. Ekki nema camper skóna. Er orðin afar þreytt á druslu-ástandinu.

Ekki nóg með fataekkluna, það er allt. Hárið er hræðilegt því ég get ekki fundið almennilegan klippara hér í borg. Ég er með BUMBU sem ég bara get ekki losnað við. Ég ét á mér varirnar í kuldanum og fæ þurra húð og bólur. Mig langar í allsherjar meikóver. Frá toppi til táar. Vil ekki vera Leipzig-drusla lengur.

Annars er nú eins gott að ég sé ekki farin í Leipzig-hárstílinn. Hér eru konur á öllum aldri með fjólubláar, bláar, gular, rauðar, bleikar og ég-veit-ekki-hvað strípur í hárinu. Það er svo hrikalega ljótt að ég verð bara pirruð að sjá þetta. Oft verð ég það pirruð út í smekkleysið hér - ekki bara hárstílinn, heldur allt heila klappið að mig langar að hrista þær til, blessaðar Leipzig-druslurnar. En ég bara tala ekki þýsku.

Ég kíkti þó í búðir í dag. Kíkti í **** H&M sem ég orðin ótrúlega þreytt á. Leipzig druslurnar eru á prósentum hjá H&M hér. Og hvað keypti Ellen sér í H&M? Nú, auðvitað tvenna druslu-boli. Gráan stuttermabol og húð-brúnan síðermabol sem missir allt snið eftir fyrsta þvott. Sem er svo sem ágætt því hann er of þröngur yfir bumbuna. En ég fékk hugmyndir þegar ég kíkti í aðrar búðir. Sá fallegar kvenlegar flíkur. Hver veit nema ég eigi möguleika á að verða kvenleg á næstu vikum...

laugardagur, nóvember 04, 2006

Nokkrar myndir


Búin að setja inn þessar fáu myndir sem ég tók í Köben - passwordið það sama.

Hætti við að fara til Bonn í dag með vinnufélögunum, nennti engan veginn í aðra sex tíma rútuferð. Svo ég er búin að hafa það ótrúlega huggulegt hér heima - hlusta á Chet Baker, fara í bað, drekka kaffi og lesa góða bók. Gerist varla betra.

Góða helgi

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Fyrsti snjórinn...

... fallinn í Leipzig.

Veturinn er kominn.

Heim á ný

Það var frábært að hitta stelpurnar (og strákana líka!) í Köben - algert æði. Veðrið var ekkert sérstakt - ótrúleg umskipti, á föstudaginn var tuttugu stiga hiti og í dag eru um 2 gráður og hriiiiikalega kalt. Magnað.

Við ætluðum að taka rútuna yfir til Köben, en þegar við vorum komin til Berlínar þá og hringdum í rútufyrirtækið þá var okkur sagt að engin rúta færi þann dag því það var stormviðvörun og ekki víst að ferjan færi yfir. Þá voru góð ráð dýr, en við ákváðum að eyða 120 evrum í lestarferð (í stað 25 evrum í rútuferð) og komumst því á leiðarenda, samt fór lestin líka í ferju, en bara styttri leið. Elín og Guðjón komu yfir til Köben á föstudeginum, við eyddum huggulegu kvöldi í nýja risastóra þriggja hæða húsinu hennar Öglu og Vlada - ótrúlegt slott ;) Mjög huggulegt, svona smá sumarbústaðarfílingur - stór garður og miiiikið pláss fyrir fötin og pappírana hans Vlada ;)

Fórum svo í bæinn á laugardeginum, fengum okkur geðveikan hádegismat á stað sem ég man ekki hvað heitir - en mæli með honum! Fórum svo út að borða á tælenskan veitingastað sem er æði, og svo á barinn. Kíktum til Elínar og Guðjóns til Lundar á sunnudeginum, Elín gerði ljúffengar pönnsur með rjóma og sultu, namminamm. Röltuðum um miðbæ Lundar og skoðuðum elstu þjóðkirkju í Svíþjóð, mjög flott og flottur sætur lítill miðbær í Lund. Á mánudeginum verslaði ég með Marcel í Köben - keyptir mér vetrarúlpu sem betur fer, er strax búin að koma að góðum notum, brrrrr. Gátum tekið rútuna heim - en las það reyndar í gær í fréttunum að ferja frá Noregi gat ekki komist til Köben og þurfti að bíða í marga tíma til að komast að landi út af veðri. Það er greinilega kominn vetur í Evrópu.

Takk takk takk Agla og Valdi og Elín og Guðjón fyrir góðar stundir :)

Erfitt að byrja að vinna aftur eftir frí - hlakka til að eyða helginni heima í rólegheitum.

Góðar stundir.

Set myndir inn sem fyrst