miðvikudagur, júní 29, 2005

Indie-ball

Jæja, þá er ég búin að panta 22 fyrir Indie-ball 6. ágúst :) Mæting milli 20:00-21:00 og svo verðum við að hætta að spila um miðnætti, kannski hálf eitt í seinasta lagi. Fyrst er mæting heima kl. fimm þar sem létta veitingar verða í boði, svo getur fólk annað hvort verið hjá mér þar til ballið byrjar, eða skroppið heim á milli. Svo verður tilboð á barnum, stór bjór á 400 kall. Jibbí jei, þetta verður skemmtilegur dagur, ég ætla að vera búin með ritgerðina þá.

Er á leið til Leipzig í fyrramálið eldsnemma, tek rútuna kl. 4:30 og flugið er kl. 7:50. Kem svo heim á þriðjudaginn síðdegis.

Bless á meðan ;)

fimmtudagur, júní 23, 2005

Framfarir

Já, það hafa orðið framfarir. Ritgerðin gengur hægt, en ég er örugglega komin með um 80 blaðsíður sem er ágætt. Þarf bara að komast í gegnum niðurstöðukaflann þá er þetta allt á réttri leið. Er reyndar orðin smá kvíðin fyrir Leipzig og viðtalinu, en hlakka samt til að fá smá frí og slappa af, setjast á útikaffihús og drekka kaldan öl með Friedu. Ætla að undirbúa smá kynningu á verkefninu mínu og vera við öllu búin.

Er annars komin með húsnæði úti og mun leigja með Chris sem er innfæddur (áhugavert) og Kim sem er nýsjálensk stelpa. Þetta er hús á þremur hæðum, kjallari, jarðhæð og á 2. hæð eru svefnherbergin. Stórt hús sem lítur svona út: http://statecollege.apartmentstore.com/listing27.php það er hægt að fá svona virtual tour um neðri hæðina. Þetta er ekki sama hús, en sambærilegt. Rétt hjá skólanum og með stór svefnherbergi. Eins gott að hætta ekki við núna, er búin að lofa þeim að koma. Sjáum til, þeir þurfa virkilega að heilla mig upp úr skónum í Leipzig til að mér snúist hugur.

Jæja, ritgerðin bíður.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Míó

Var að komast að því að húsið sem ég var búin að finna í State College leyfir ekki gæludýr :( Ég gæti auðvitað reynt að finna mér annað hús, en þetta virkaði bara svo vel á mig. Væri kannski til í að fara þangað og vera þar til jóla, finna pössun fyrir Míó til jóla og taka hann svo með út eftir jól. Þá gæti ég verið búin að finna annað húsnæði. Ég veit ekki, kannski ætti ég að reyna að finna hús strax sem leyfir gæludýr, en hvað á ég þá að gera við hann þegar ég fer heim um jólin???

þetta er flókið mál.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Meiri tónlist

Ég fæ bara í magann þegar ég hlusta á Death Cab for Cutie. Tók smá tíma að venjast þeim, en svo venjast þeir ansi vel. Title and Registration, af Transatlanticism alger snilld. Búin að vera með viðlagið á heilanum í dag:

There´s no blame
for how our love did slowly fate
and now that it´s gone
it´s like it wasn´t there at all
and here I rest
with dissapointment and regret
collide
lying awake at night
all night

Textinn hljómar þunglyndislegur, en melódían er afar falleg og felur í sér von :)

mánudagur, júní 13, 2005

Bjartar nætur

Klukkan er að ganga eitt. Ég er búin að vera ofurþreytt í allt kvöld en allt í einu glaðvaknaði ég. Kannski eftir að horfa á Lost? Það er svo ótrúlega falleg birta úti, ég tími ekki að fara að sofa. Fór að skoða gamlar myndir. Ætlaði að ganga lengra með nostalgíuna og fara að skoða gamlar dagbækur, en hætti við sem betur fer. Það verður skrýtið að pakka niður albúmunum og geyma þau í geymslu í mörg ár. Mörg ár. Mörg ár er langur tími. En þegar ég kem til baka verða ný albúm, nýjar minningar, nýtt fólk. Ég hlakka til.

Er í fyrsta skipti með tölvuna í rúminu. Frekar þægilegt. Ætti samt frekar að taka upp bók og lesa.

Það eru allir svo fallegir í Lost. Hverjar eru líkurnar á því að flugvél farist með nánast eingöngu fallegu fólki innanborðs? En markmiðið er eflaust frekar að selja þættina í stað þess að endurspegla raunveruleikann.

Var að hlusta á Bloc Party diskinn um helgina. Mikið stuð. Hann mun fá spilun á Indie-kvöldinu. Já, talandi um það, Helga systir er búin að panta 6. ágúst fyrir Indie-kvöldið. Fyrst verður kveðju/útskriftarpartý heima svo verður stefnan tekin á 22 þar sem verður dansað frameftir nóttu. Það verður stuð. Takið frá 6. ágúst frá kl. 5 til X.

Styttist í Leipzig. Ætti að fara að semja stuttan fyrirlestur... æ æ æ

laugardagur, júní 11, 2005

Leti

Búin að leysa krossgátuna í Mogganum. Búin að drekka morgunkaffið. Búið að kíkja á póstinn minn. Búin að spjalla smá á msn-inu. Þá er bara að byrja á verkefninu, vinna. Það er svoooo erfitt að koma sér að verki, hvernig stendur á þessu? Hvað er hægt að gera í þessu? Af hverju getur þetta ekki verið þannig að ég hlakki til að byrja að vinna? Er til svoleiðis vinna???

Sá Voksne Mennesker í gær e. Dag Kára. Mjög fín mynd, aðalkarakterinn minnti mig á Nóa Albínóa, ungur maður í smá tilvistarkreppu. Góður húmor og flott yfirbragð. Mæli með henni.

Mæli líka með mat frá Austurlandahraðlestinni, mjög gott. Ólöf vinkona kom í heimsókn með mat þaðan, svo kíktum við í bíó.

Úff, míó er of hugrakkur, hann stekkur upp í opinn gluggann á mikilli ferð og hangir svo út um hann og reynir að ná óheppnum flugum sem fljúga framhjá. Hann er of feitur til að lifa fallið af... en hvað getur maður gert? tekið þetta litla frelsi sem hann hefur af honum???

Jæja, mæli með að byrja að læra.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Forn bein

VÁ!

Ég fór með Agga á ancient-DNA rannsóknarstofuna sem er í sama húsi og geymsla Þjóðminjasafnsins, ótrúlega var þetta spennandi og skemmtilegt. Við skoðuðum lab-ið svo fengum við að skoða hauskúpur og bein landnámsmanna sem voru geymd í pappakössum í hillum sem náðu frá gólfi upp í loft. Merkilegt, mjög vel varðveittar hauskúpur sumar, ein sem við skoðuðum, sem var af konu, var með allar tennurnar og alveg heil að öllu leyti. Aggi er að vinna ancient-DNA project úr 100 landnámsmönnum þar sem hann tekur tönn úr hverjum einstaklingi og einangrar úr þeim DNA sem síðan er hægt að skoða og gera tilraunir með.

Ég fékk fiðring í magann ég hlakkaði svo til að fara út í nám og læra meira þessu tengt. Ég er heppin, og ég er ekkert smá ánægð með að vera á leið út í nám sem mér finnst ótrúlega spennandi, og sem opnar svo marga möguleika (sé fyrir mér svona Indiana-Jones fílíng, ég í Afríku að grafa upp bein, mæti svo grafræingjum sem reyna að stela frá mér beinunum, eða gullinu sem grafið var með þeim...) muahahahha, íha!

Ég er spennt, ánægð og himinlifandi yfir þessum tímamótum. Sama hvert ég fer, Leipzig, Penn State, alveg jafn spennandi möguleikar.

Jæja, best að koma sér í gírinn. Kannski er ég með nafn konunnar sem hauskúpan tilheyrði í grunninum mínum. Kannski var þetta hún Þórhildur Hrafnsdóttir kona Skarphéðins Njálssonar úr Njáls sögu. Kannski.

Flugmiðakaup

Þá er ég búin að kaupa mér flugmiða til Boston! Ég varð að gera það, jafnvel þótt ég viti ekki alveg 100% hvort ég sé að fara, en það var allt að verða uppbókað. Fékk miða á 50.þús sem ég held að sé ágætlega sloppið. Fer út 18. ágúst og kem heim 18. desember. Frekar snemmt, en það var allt uppbókað á þessu verði seinna í desember. Ég get alltaf breytt miðanum líka. En ef ég enda á því að fara til Leipzig, þá á ég eitt stykki farmiða til Boston! Gaman gaman!!!

Þá á ég bara eftir að kaupa flugmiða til Miami og State College. Ég verð gjaldþrota...

þriðjudagur, júní 07, 2005

Max Planck

Skjótt skipast veður í lofti!

Ég ákvað að kíkja í heimsókn til Leipzig eftir þó nokkra umhugsun. Fyrir fólk eins og mig sem á erfitt með að taka eigin ákvarðanir hlustaði ég á ráð tveggja aðila sem ég lít mikið upp til, og keypti mér miða í framhaldi af því. Þetta er tækifæri sem ég ætti ekki að láta framhjá mér fara, kannski verð ég mjög hrifin af þessu og ákveð að vilja þetta fremur. Kannski sé ég að þetta sé alls ekki fyrir mig og verð þá enn sáttari við að fara til Bandaríkjanna.

Ég fer sem sagt út 30. júní og kem heim 5. júlí. Gisti hjá Friedu vinkonu minni í Berlín og við ætlum að ferðast aðeins um svæðið líka. Fara til Dresden og heimsækja kærasta hans í Hamburg. Jibbííí, ég hlakka til. Þetta verður gaman og alltaf góð æfing að fara í svona viðtöl.

Annars bað hann (sem hafði samband frá Max Planck, Mark Stoneking) mig að halda fyrirlestur um verkefnið mitt. Jesús, ef ég væri ekki svona smeyk við það væri þetta skemmtilegt tækifæri, ég sagðist ætla að sjá til. Ekki mjög prófessjonalt svar... almáttugur, og ég er á leiðinni í doktorsnám. Verð að fara að komast yfir þetta.

Jæja, best að snúa sér að ritgerðinni. Ég skilaði fyrsta kaflanum í gær, mjög góð tilfinning. Er að vinna í niðurstöðukaflanum núna. Þetta mjakast áfram.

Góðar stundir.

laugardagur, júní 04, 2005

Ákvarðanatökur

úff, það er allt of erfitt að taka ákvarðanir. Vildi að það væri til vél sem tæki fyrir mann réttar ákvarðanir, vél sem sæi fram í tímann og gæti valið fyrir mann. Bíddu, hvernig var þetta aftur í Lovestar? maður gat spurt að því hvað hefði gerst hefði maður tekið aðra ákvörðun en maður tók og svarið var alltaf á þá leið að maður hefði orðið fyrir strætó og dáið. Það er góð speki. Ef ég tek aðra ákvörðun en þá sem ég tek þá verð ég fyrir strætó og dey. Ef ég ákveð að fara í viðtalið til Þýskalands þá verð ég fyrir strætó, eða lest, og hreinlega dey.

Ég fékk svar loksins frá Max Planck. Þeir vilja fá mig í viðtal, "all expenses paid" eins og þeir segja. Ef ég væri ekki svona upptekin við að klára ritgerðina mína þá myndi ég þiggja þetta boð. Heimsækja Friedu í Berlin í leiðinni. Skoða Leipzig. Væri áhugavert. En.... ég hef ekki tíma. Gæti farið algerlega óundirbúin, en það væri of erfitt og vandræðalegt að geta ekki svarað neinu. Eins og í Sanger, nei, aldrei aftur!!! Of stressandi.

Gengur afar hægt með ritgerðina, en ætla að skila fyrsta kaflanum á mánudaginn. Þess vegna sit ég í sófanum og blogga. Þess vegna fór ég á kaffihús í dag og sleikti sólina. Þess vegna ætla ég að fara á Hjálmar tónleika á eftir. Já, ég er gott material í doktorsnema....

Sjálfsagi er ekki til í mínum orðaforða.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Góðar fréttir

Jibbíííjeeeiijibbíbbbííjeeeieiei,

Ég var að fá bréf frá einum prófessor úti og hann var að segja mér að þeir ætla að fella niður skólagjöldin fyrsta árið líka :):):) Sparaði mér tvær milljónir þar! Ég er ekkert smá ánægð. Nú er þetta orðið algerlega opinbert og búið að taka allan vafa af því að ég er að fara.

TIL STATE COLLEGE, PENN STATE háskóla!!!!! jíbbííjeeeeiii,

mjög gott, nú þarf ég ekki að breyta nafninu á bloggsíðunni minni ;)

Ánægð Ellen.

Kveðjustundir

Jæja, búin að fara á Fulbright skrifstofuna og skrifa undir það að ég muni taka við styrknum. Er þetta sem sagt ákveðið núna? úff... á eftir að átta mig á þessu öllu saman held ég. Svo þegar maður er farinn að kveðja fólk þá fer þetta líka að verða svolítið alvöru. Kvaddi Tinnu frænku áðan. Hún er að fara til Noregs og kemur ekki heim fyrr en 30. ágúst. Þá verð ég farin. Mér fannst erfitt að kveðja hana, varð klökk. Ég þoli ekki kveðjustundir, mikið kvíði ég að kveðja alla hina :( Sérstaklega Míó, en ég er alvarlega að hugsa um að taka hann með. Var að fá email frá Höllu, íslensk stelpa sem er í Penn State og hún sagði mér að ein stelpa fór með tvo hunda og tvo ketti með sér út og það gekk allt vel! Mig laaaangar svo að hafa hann með, bara spurning með hvernig ég fer að því... hvað ætli kisur séu lengi að jafna sig eftir tíu tíma ferðalag? Hvort ætli honum líði betur með að vera hér heima hjá ókunnugum, eða leggja á sig tíu tíma ferðalag og vera með mér? Hvað haldið þið?