mánudagur, október 23, 2006

Kaupmannahöfn og Lundur

Jæja, nú eru aðeins fjórir dagar þangað til við leggjum af stað til Kaupmannahafnar, jibbíjei - ég hlakka mikið til að hitta stelpurnar. Förum á föstudaginn með rútu og komum aftur á þriðjudaginn með sömu rútu. Átta tíma ferð, og þar af tveir tímar í ferju - stuð stuð.

Fór á doktorsvörn á föstudaginn, ein stelpa sem er að vinna með mér var að útskrifast. Mjög flott hjá henni, hún er frönsk og öll fjölskyldan hennar kom til landsins til að fagna með henni - afar hjartnæmt. Ég vona að ég ljúki e-n tíma þessum áfanga - en sennilega verður það ekki fyrr en eftir amk 3 ár. Eftir vörnina var svaka partý í hér hjá Max, góður matur og dansað fram eftir, Sean, Emily og Adrian sömdu lag handa nýja doktornum - voða emotinal allt saman.

Var að koma úr nuddi og er hálf vönkuð. Langar bara að sofa meira. Rigning og grátt. Annars var 20 stiga hiti um helgina - ágætt að það teygist svona á sumrinu/haustinu.

Góða vinnuviku.

mánudagur, október 16, 2006

Meira haust

Komið meira og meira haust. Tíu stiga hiti á daginn og 3-4 á næturna. Kalt. Farin að nota ofnana aftur í íbúðinni, en þetta er hugguleg og rómantísk árstíð. Fór með Marcel upp í Harz-fjöllin á laugardaginn, fórum í þriggja tíma göngu í þoku og úða, en það var samt fallegt og gaman. Ætluðum að gista í ótrúlega fallegum bæ sem heitir Werningeroden, en gáfumst upp eftir að hafa spurt um gistingu á fimm gistiheimilum þar sem allt var uppbókað. Sá bæinn bara í myrkri, en þrátt fyrir það held ég að þetta sé einn fallegasti bær sem ég hef heimsótt. Miðaldarbær með kastala og fallegum miðaldarhúsum - tilheyrir UNESCO, verð að kíkja þangað aftur í dagsbirtu - og panta fyrirfram gistingu. Hvað með þýsku skipulagshæfileikana? Marcel klikkaði á þessu um helgina...

föstudagur, október 13, 2006

Nýnasistar

Hrikalegt! Lesið þessa frétt... það er svo mikið af nýnasistum hér í Saxoníu, það er alveg skelfilegt.

Annars er þetta nú frekar niðurdrepandi föstudagur að öllu leyti barasta, þoka og rigning og kuldi og grátt og ég var að fatta að ég þarf að halda fyrirlestur fyrir hópinn minn á mánudaginn - var búin að steingleyma því. Er enn í vinnunni að reyna að koma e-u saman, en ætla að fá mér bjór með kollegum eftir hálftíma ;) Ætla svo að fara upp í fjöll á morgun vonandi (ef veður leyfir) með Marcel, ætlum að gista eina nótt og fara í göngu og svona. Vona að það verður ekki rigning á morgun, þá þurfum við að hætta við.

Góða helgi

þriðjudagur, október 10, 2006

Jibbíjeieieie

Þessi litla törn búin, ég er mjög ánægð. Prófð gekk ekki svo vel reyndar, en það gekk mjög mörgum illa, svo það skiptir engu máli...

Nú er ég að fara að grilla á svölunum í kuldanum og ætla svo að fá mér bjór á hverfisbarnum með Marcel í kvöld og slaka almennilega á, ahhhhh hvað er gott að ljúka hlutum. Sehr gut sehr gut.

sunnudagur, október 08, 2006

Sunnudagur í vinnunni

Ekki frá því að vera með heimþrá í dag. Er að hlusta á rás 2, vildi fremur hlusta á rás 1 - en þar var verið að spila biblíusögur - ekki í miklu biblíuskapi í dag frekar en aðra daga. Allavega, hlusta á rás 2 og heyrði í Megasi. Hvað er meira íslenskt en Megas og hans frábæru textar? Hugsaði um hvað ég gerði yfirleitt á sunnudögum heima. Hitti Helgu sys og mömmu og krakkana. Í kaffi til mömmu. Ég sakna þess að fara í kaffi til mömmu og Karlottu með Helgu og krökkunum. Mikið sakna ég þess.

En í dag er fallegur dagur - sólin skín og það er kalt. Næstum það kalt að maður þurfi að nota vettlinga. Yndislegt, mig langar að vera úti í allan dag. En ég er að fara í próf á morgu og verð víst að lesa yfir þetta blessaða efni. Klukkan er 11:40 og ég er komin í vinnuna, engin hér enn, en ég á von á hinum sem þurfa að taka prófið líka, stundum er þetta einsog að vera í menntaskóla hér.

Njótið sunnudagsins og fjöskyldunnar og alls hins besta á Íslandinu góða eða hvar sem þið eruð!

föstudagur, október 06, 2006

Lífið í Leipzig



Myndin var tekin síðasta sunnudag, á afmælisdegi Claudieh og Adrian. Fórum í þriggja tíma kanó siglingu um Leipzig, ótrúlega gaman - sól og hiti. En nú er haust og kuldi. Fljótt að gerast.

Ástæðan fyrir tíðum bloggfærslum undanfarna daga er sú að ég er að læra undir próf og að undibúa fyrirlestur. Jamm. Ætli ég fari ekki að skúra og þurrka af í efri skápunum líka.

Setti inn myndir frá því í sumar, var að fá nokkrar myndir frá Hannesi í gær. Búin að búa til nýtt albúm sem heitir Sumar og haust í Leipzig 2006 - passwordið það sama og áður ;)

Góða helgi.

fimmtudagur, október 05, 2006

Meira um Þjóðverja

Er búin að skemmta mér konunglega yfir lestri um Þjóðverja frá Spiegel, bara get ekki hætt, þetta eru yfirleitt pistlar skrifaðir af útlendingum sem búa í Þýskalandi, þetta hittir beint í mark. Greinin sem ég blogga hér fannst mér einna fyndnust. Minnir mig t.d. á þegar ég segi við Marcel: Oh, mikið langar mig til Parísar, það væri yndislegt að fara þangað í haustferð (bara dæmi). Þá er hann líklegur til að svara "Þú hefur ekki efni á að fara til Parísar. Auk þess ertu að læra undir próf og ert að gera fyrirlestur, þú hefur engan tíma". Kíkið á þessa grein með því að smella á fyrirsögn...



Scoring a German



Fyndin frétt á Spiegel International, kíkið á þetta.

Í sama blaði kemur fram að "While much of the rest of Europe is cracking down on tobacco, Germany remains a smoker's paradise..." Óþolandi.

Horfði á góða mynd um daginn - kom á óvart. The constant gardener. Bryndís vinkona mælti með henni. Eftir sama leikstjóra og gerði city of god, Fernando Meirelles. Flott skot - söguþráðurinn kannski svolítið ýktur, amk á ég bágt með að trúa að slíkt geti gerst, en kannski er það bara barnaskapur í mér.

miðvikudagur, október 04, 2006

Haust

Það er komið haust. Það kom á mánudaginn. Nú er rétt rúmlega tíu stiga hiti, grátt, rigning og laufin falla af trjánum. Samt eru þau enn nokkuð græn, mig langar að fara í ferð út fyrir Leipzig eftir mánuð þegar laufin eru rauð og appelsínugul og gul - ekki amalegt.

Er reyndar búin að ákveða að fara til Svíþjóðar og Danmerkur í heimókn síðustu helgina í þessum mánuði. Verð kannski bara að láta mér nægja að skoða litskrúðug lauf með Elínu og Öglu. Jeei jeei, það verður gaman. Er að hugsa um að taka rútu - mig minnir að Agla og Vladi hafi gert það og sloppið vel frá því!

Í gær var frídagur - haldið upp á sameiningu Þýskalands. Á þessum degi er hefð hjá nýnasistum að marsera í gegnum Leipzig og margir öfga-vinstrisinnar mótmæla þessari göngu með því að brjóta rúður og kveikja í bílum. Hm. En svo er miðjufólk sem kann að mótmæla án þess að skemma neitt og standa bara með skiltin sín í rigningunni. Lögreglan var alls staðar sjáanleg, lögreglumenn og konur með risastórar byssur og ýmis önnur vopn, þyrlur fljúgandi yfir borgina allan daginn - frekar óhuggulegt eitthvað. Ætlaði varla að þora að hjóla heim úr vinnunni í gær, löggan stoppaði Hannes þrisvar á leið í vinnunna og skipaði honum að fara aðra leið en hann ætlaði. En ég komst heim án þess að lenda í löggunni. Fór snemma heim því það var nú einu sinni frídagur, og bakaði 'Elínarbrauð', mmmm - með sólblómafræjum og osti. Mjög gott.

Hlakka til að kíkja yfir til Elínar og Öglu, verðið þið ekki örugglega heima???