fimmtudagur, desember 22, 2005

Heim á fornar slóðir


rjupufell
Originally uploaded by austurfari.
Komin í Rjúpufellið. Til mömmu í Breiðholti. Mjög ljúft, en alltaf er Breiðholtið jafn langt frá miðbænum sem er alltaf jafn leiðinlegt. Hér er þó hlýtt og gott að vera, mikill lúxus í alla staði. Þráðlaust hratt net, alger lúxus.

Takk fyrir mig Guðbjörg mín, þetta var frábært og gaman að hitta ykkur allar aftur.

Ligg núna upp í rúmi með tölvuna í kjöltunni og er nettengd. Varð bara að monta mig, langar í svona tæknivætt umhverfi í Þýskalandi, en það er víst lítið hægt að ýta við þeim þar.

Heimiliskötturinn Óliver klórar í hurðina og vill komast inn. Ég heimsótti Míó í dag til systur mömmu, ótrúlega gaman að hitta hann aftur, besti og skemmtilegasti kötturinn í heimi. Ójá.

Reykjavík er falleg borg. Í dag var svo yndislega falleg birta yfir borginni, mikið þykir mér vænt um þessa borg. Gaman að hafa útsýni yfir falleg fjöll, hafið og himinn. Þreytt á því hvað byggðin er þétt í Leipzig og maður sér aldrei neina náttúru. Reykjavík er kúl.


Góða nótt.

mánudagur, desember 19, 2005

Styttist í heimför


iceland
Originally uploaded by austurfari.
Tveir dagar í heimför. Er að skipuleggja ferðalagið, kaupa lestarmiða til Berlínar og svona, reyna að láta alla tíma passa saman. Þetta er svolítið langt ferðalag, legg af stað um ellefu frá Leipzig og kem til Reykjavíkur um miðnætti. Tvær lestar og tvær fluvélar og ein rúta. Og svo vonandi bíll í Breiðholtið! Er náttúrulega á síðustu stundu með allt saman, er að reyna að púsla öllu saman, verst er að ég er ekki búin að finna íbúð, sem hefði verið mjög gott fyrir brottför. Er að skipuleggja partý hjá íbúðareigandanum í kvöld, en er ekki í neinu partýstuði. Of mörg partý, ég hlakka til að fara í smá afslöppun heima... eða hvað? Kannski stanslaust djamm frameftir nóttu hverja nótt??? Hvar endar þetta???

föstudagur, desember 16, 2005

mmmmm... Sushi


Sushi
Originally uploaded by austurfari.
Hef komist að því að ég er mjög ómenningarleg og mjög óspennandi karakter. Því mér finnst sushi vont. Allir elska sushi, sushi er kúl, sushi er í tísku. Ég hef gert margar tilraunir til að borða sushi og líka það, þetta er svona "aquired taste" hef ég heyrt, en mér líkar það bara ekki. Ég er búin að gefast upp, ég er ekki kúl, ekki mjög menningarleg og ekki mjög spennandi. Held ég hafi endanlega gefist upp um daginn þegar mér var boðið í sushi til eins vinnufélaga, allir voru voða spenntir og hökkuðu í sig heilu bitana með prjónum. Ég reyndi að búta bitana niður í marga litla bita svo ég gæti kyngt án þess að kúgast. Já, svona vildi ég mikið falla í kramið að ég píndi í mig sushi. Drakk mikið rauðvín með til að verða mér ekki til skammar. Þangið utan um rúllurnar finnst mér hrikalega vont. Svo fór ég í matarboð á miðvikudaginn þar sem boðið var upp á fondue, og sushi í forrétt, sem strákur frá Kóreu bjó til. Allir voða spenntir. Ég var sú eina sem sagði nei takk og það vakti mikla undrun. "What, why not???" "I don´t like sushi, I´m terribly sorry".

Fondou fannst mér heldur ekkert sérstakt... sem gerir mig sennilega enn aumkunnarverðari!!!

Ætla að fá mér pizzu í kvöld, jafnvel hamborgara, og mun örugglega drekka mikið af kóki með.

mánudagur, desember 12, 2005

Paco


IMGP2406
Originally uploaded by austurfari.
Hér er Paco, alvöru Paco. Adrian tók mynd af honum um daginn. Þetta dýr gengur um laust þar sem ég bý núna, sætur ekki satt?

Meine Liebe Claudieh


4
Originally uploaded by austurfari.
Langaði til að kynna ykkur fyrir Claudieh, mín besta vinkona hér í Þýskalandi. Myndin er tekin þegar við fórum til Dresden á Bloc Party tónleikana, nánar tiltekið í Frauerkirche sem var algerlega eyðilögð í seinni heimstyrjöldinni, en nú er búið að endurbyggja hana. Frekar skrýtið að sjá gamla barrokk kirkju sem byggð var á 21. öld. En impressive.

Helgin var mjög skemmtileg. Hélt smá partý hjá Philipp því vinir Adrians frá Englandi voru í heimsókn. Fórum svo á skemmtistað þar sem ég hitti margt skemmtilegt fólk. Á laugardaginn fór ég til Berlínar að hitta Friedu og kærasta hennar, Jens. Okkur var boðið í mat til foreldra Jens, pabbi hans er listakokkur og ég borðaði yfir mig af ljúffengum fisk og öðru góðgæti. Hef komist að því að þjóðverjar borða HRATT, ég skil ekki hvernig þeir fara að því að borða forrétt, aðalrétt og eftirrétt á hálftíma. Ekki gott fyrir meltinguna. Fórum svo aðeins út, en vorum komin snemma heim, enda var ég mjög þreytt eftir föstudaginn. Á sunnudaginn var okkur boðið í jólakaffi hjá vinum þeirra, smakkaði fullt af þýskum kökum og jólanammi, namminamminamm. Kíktum svo á enn einn jólamarkaðinn og svo tók ég lestina heim um kvölið. Átti náðugt kvöld með Paco sem er kominn í leitirnar, horfði á DVD í hlýrri íbúð og svaf vel í hlýju svefnherbergi. Núna verð ég að vera dugleg í vinnunni þessa síðstu viku fyrir Ísland...

föstudagur, desember 09, 2005

Hugfangin af erfðaefninu


DNA
Originally uploaded by austurfari.
Er að læra nýja hluti í vinnunni þessa dagana. Er búin að fá mínar fyrstu DNA raðir úr níu Polýnesíubúum. Get lesið erfðaefnið þeirra í fitugeninu. Get séð hvort það sé almennt ólíkara en í öðru fólki. Mér finnst þetta allt afar merkilegt. Að hugsa til þess að í upphafi var ein fruma sem náði að gefa af sér ALLT líf á jörðu. Allt líf. Og nú er einn afkimi þessarar frumu orðin það metnaðargjarn og tæknivæddur að hann er farin að skoða "þessa" frumu í smáatriðum. Stórmerkilegt.

Helgin er vel plönuð eins og vanalega. Er að fara á e-s konar tónleikahátíð í kvöld, margar live hljómsveitir að spila á börum bæjarins. Svo á morgun ætla ég til Berlínar í heimsókn til Friedu í eina nótt. Jens, kærasti hennar er í heimsókn og það er búið að bjóða okkur í mat til foreldra hans. Meira þýskt fjölskyldulíf! Svo kíkjum við á næturlífið í Berlín. Lúbblúbb.

Ég voooona að paco sé í trénu sínu þegar ég kem þangað á eftir. Heyrði ekkert í eigandanum í gær, sem er vonandi gott...

Góða helgi.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Hvar er Paco???

Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni fann ég Paco (eðluna) hvergi. Ég gerði dauðaleit að henni, en allt kom fyrir ekki. Ég fór út og kom seint heim um kvöldið, enn enginn Paco sjáanlegur. Fór að sofa og um morguninn var Paco enn í felum. Jesús, ég skil þetta ekki, hann gæti ekki hafa komist út. En klósettsetan var opin... geta eðlur klifrað ofan í klósett??? Eigandinn er að koma heim í nótt, ætla rétt að vona að Paco vilji heilsa upp á hann. Ef hann er enn á lífi og enn í íbúðinni. Hef sjaldan haft eins miklar áhyggjur af einu dýri. Var að lesa um iguana eðlur í bók sem Philipp á og þar kom í ljós að það er ekki eins einfalt að eiga eðlu eins og ég hélt. Þetta er heilmikið mál. Maður þarf að "vökva" þær, þrífa svæðið þeirra daglega (sem er öll íbúðin í hans tilfelli, en það gerir Philipp auðsjáanlega ekki), hirða um neglurnar, hugsa vel um mataræðið, passa raka- og hitastig og ég veit ekki hvað og hvað. Veit ekki hvað ég mun gera ef hann kemur ekki í leitirnar. Kaupa nýja? Hvar kaupir maður iguana eðlu í Þýskalandi???

þriðjudagur, desember 06, 2005

Vondur draumur

Vaknaði við læti í eðlunni klukkan hálf sex í nótt. Mikil læti, ég veit ekki hvað gekk á. Og aftur þetta hljóð í klónum á parketinu, klikk klikk klikk klikk. Svo fannst mér eins og hún væri að reyna að komast inn í svefnherbergið, sá fyrir mér að hún væri að klóra með löngu klónum sínum í hurðina. Lætin voru það mikil að ég hélt hún væri búin að hella niður öllu vatninu sínu og henda niður öllum blómapottum í stofunni. Mér fannst þetta allt svo krípí að ég var ekkert að athuga hvað hún væri að gera, reiknaði út að eðlur sem eru svangar (fannst það eina rökrétta skýringin á látunum) væru mjög agressívar líka, svo ef ég myndi opna svefnherbergshurðina myndi hún ráðast á mig og bíta mig. Var nefnilega að skoða myndir af Iguana eðlum á netinu um daginn og fékk upp mynd af slæmu eðlubiti á mannshandlegg. Ekki fallegt. Ég náði að sofna aftur og fór þá að dreyma að hún væri komin inn í herbergi og var hún orðin risastór. Hún ætlaði að borða mig og ég reyndi að róa hana niður og meira að segja reyndi ég að sjá hennar góðu hliðar. Mér til mikillar skelfingar tók ég einnig eftir því að margar litlar eðlur höfðu bæst í hópinn og ráfuðu um rúmið mitt. Grrrrrr, ég vaknaði sveitt og fór á fætur og gaf Paco að borða ferska steinselju. Hann var ekki búinn að hella niður vatninu né henda niður blómapottum, veit ekki hvernig hann nær að framkalla þessi hljóð.

Skammast mín fyrir hvað ég kann litla þýsku. Hélt ég yrði voða góð fyrir jól. En ég get ekki neitt, kann ekki neitt og legg mig ekkert fram við það heldur. Veit ekki hvað er að mér. Hvar er þýskumetnaðurinn???

Í dag er Nikulásardagur í Þýskalandi. Sem þýðir að allir þrífa skóna sína og setja við útidyrahurðina og fá pakka í skóinn. Svona eins og heima, nema þar eru það bara börnin sem fá pakka, og það heila 13 pakka fyrir jól. Maður má vera barn lengur í þýskalandi, en ekki ofdekrað... Ég fékk pakka frá foreldrum Claudieh sem ég gleymdi að opna og setja í skó fyrir svefn í gærkvöldi. Svo hann bíður mín heima, jibbíjei.

mánudagur, desember 05, 2005

Þýsk sveit og kjötát


sonderhausen
Originally uploaded by austurfari.
Helgin var ótrúlega fín. Held ég þurfi ekki að borða næstu vikurnar, verst að jólin eru framundan. Fór með Claudieh í heimsókn til foreldra hennar sem búa í Sonderhausen sem er í tveggja tíma fjarlægð frá Leipzig. Sætur lítill bær, merkilegt hvað litlir smábæir í Þýskalandi (og eflaust víða í Evrópu) geta haft mikinn sjarma. Yfir bænum gnæfir kastali frá 12. öld sem nú hýsir tónlistarskóla og safn. Ekki amalegt húsnæði fyrir slíkt.

Foreldrar hennar komu fram við mig einsog ég væri eðalborin, þau eru miklir Íslandsunnendur og hafa séð mun meira af Íslandi en ég. Pabbi hennar var búinn að útbúa matseðil fyrir helgina við komu okkar á föstudaginn, þýskir réttir í húð og hár! Mikið kjöt og kartöflur og lítið grænmeti, svona einsog oft tíðkast heima. Þar sem ég var gestur fékk ég risastóra skammta af kjöti og þar sem ég vildi vera kurteis reyndi ég að klára matinn minn einsog kurteisum einstaklingi sæmir. Þannig að ég sat sveitt við borðið að reyna að koma öllu kjötinu niður á meðan fjölskyldan var löngu búin og fylgdist með mér með aðdáun. Og pabbinn var afar ánægður þegar ég lýsti því yfir að ég myndi sennilega ekki borða næstu vikuna því ég var svo södd.

Við skoðuðum ýmislegt í kring um bæinn, m.a. Stolberg sem er hluti af UNESCO, friðaður fallegur smábær sem ég mæli með að heimsækja.

Ég kom heim seinnpartinn í gær og naut þess að eyða kvöldinu í nýja húsnæðinu mínu til jóla. Horfði á DVD allt kvöldið, afar ljúft.

Svo er ég kannski komin með húsnæði í febrúar, jibbíjei. Þarf að ræða betur við Lucas sambýling minn því hann sýndi áhuga á að taka hana með mér. En ég er búin að fá grænt ljós frá eigandanum, vona að Lucas samþykki.

Annars eru bara rúmar tvær vikur þar til ég fer heim, ótrúlegt!!!

föstudagur, desember 02, 2005

Áframhaldandi hlýindi


Iguana
Originally uploaded by austurfari.
Byrja á því að lýsa aðdáun minni á Bloc Party Live. Tónleikarnir voru frábærir, ég var fremst nánast allan tímann fyrir utan nokkrar vafasamar mínútur í miðjum pyttinum þar sem tvísýnt var um líf mitt, en svo náði ég að fara alveg fremst þar sem ég gat haldið dauðataki í handriðið sem hélt í mér lífinu það sem eftir var kvölds.

En þeir voru ótrúlega þéttir, með betri live böndum sem ég hef séð, en ætli ég verði ekki að viðurkenna að aldurinn sé að færast yfir mig og að ég sé hreinlega of öldruð til að vera í pyttinum og berjast við fólk á slíkum tónleikum. Ætli það séu ekki til sæti fyrir gamalmenni á rokktónleikum???

Annars er ég að fara með Claudieh í heimsókn til foreldra hennar í sveitina. Ég hlakka mikið til, fá innsýn í þýskt fjölskyldulíf, þau eru víst miklir Íslandsaðdáendur og eru búin að skipuleggja helgina í þaula. Við munum fara í gönguferðir og borða þýkan mat og eitthvað fleira.

Þegar ég kem heim mun ég fara beint í íbúð kollega míns og eyða þar tveimur vikum í hlýjunni. Er reyndar ekki alveg búin að sætta mig við Paco, iguana eðluna hans sem mér finnst frekar krípí. Sérstaklega þegar hún hleypur eftir parketinu og það heyrist "klikk klikk klikk" í klónum. En hvað gerir maður ekki fyrir heitar nætur?