mánudagur, desember 05, 2005

Þýsk sveit og kjötát


sonderhausen
Originally uploaded by austurfari.
Helgin var ótrúlega fín. Held ég þurfi ekki að borða næstu vikurnar, verst að jólin eru framundan. Fór með Claudieh í heimsókn til foreldra hennar sem búa í Sonderhausen sem er í tveggja tíma fjarlægð frá Leipzig. Sætur lítill bær, merkilegt hvað litlir smábæir í Þýskalandi (og eflaust víða í Evrópu) geta haft mikinn sjarma. Yfir bænum gnæfir kastali frá 12. öld sem nú hýsir tónlistarskóla og safn. Ekki amalegt húsnæði fyrir slíkt.

Foreldrar hennar komu fram við mig einsog ég væri eðalborin, þau eru miklir Íslandsunnendur og hafa séð mun meira af Íslandi en ég. Pabbi hennar var búinn að útbúa matseðil fyrir helgina við komu okkar á föstudaginn, þýskir réttir í húð og hár! Mikið kjöt og kartöflur og lítið grænmeti, svona einsog oft tíðkast heima. Þar sem ég var gestur fékk ég risastóra skammta af kjöti og þar sem ég vildi vera kurteis reyndi ég að klára matinn minn einsog kurteisum einstaklingi sæmir. Þannig að ég sat sveitt við borðið að reyna að koma öllu kjötinu niður á meðan fjölskyldan var löngu búin og fylgdist með mér með aðdáun. Og pabbinn var afar ánægður þegar ég lýsti því yfir að ég myndi sennilega ekki borða næstu vikuna því ég var svo södd.

Við skoðuðum ýmislegt í kring um bæinn, m.a. Stolberg sem er hluti af UNESCO, friðaður fallegur smábær sem ég mæli með að heimsækja.

Ég kom heim seinnpartinn í gær og naut þess að eyða kvöldinu í nýja húsnæðinu mínu til jóla. Horfði á DVD allt kvöldið, afar ljúft.

Svo er ég kannski komin með húsnæði í febrúar, jibbíjei. Þarf að ræða betur við Lucas sambýling minn því hann sýndi áhuga á að taka hana með mér. En ég er búin að fá grænt ljós frá eigandanum, vona að Lucas samþykki.

Annars eru bara rúmar tvær vikur þar til ég fer heim, ótrúlegt!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home