þriðjudagur, janúar 31, 2006

Tíminn drepinn meðan beðið er eftir lab-dóti

núverandi tími: 17:51 á miðvikudegi
núverandi föt: Rauður rúllukragabolur, gallabuxur, svartir lágbotna doctor marteins skór
núverandi skap: þreytt og langar í sumar
núverandi hár: frekar slappt og líflaust og illa greitt þar sem ég náði ekki að blása það í gær!
núverandi pirringur: nenni ekki að vinna eða að hafa veturinn lengur
núverandi lykt: táfýla!
núverandi hlutur sem þú ættir að vera gera: lesa greinar um uppruna Filippseyinga
núverandi skartgripur: enginn
núverandi áhyggjur: almennar framtíðaráhyggjur og áhyggjur af árangri í vinnu
núverandi löngun: heim! þá meina ég alla leið heim til Íslands

núverandi ósk: eiga sér íbúð með húsgögnum og öllu tilheyrandi, s.s. hér í Leipzig
núverandi farði: maskari og púður til að fela unglingabólurnar sem láta mig ekki í friði (ég fel þær með púðrinu ekki maskaranum sem sagt, ætli það væri ekki bara meira áberandi að vera með svarta díla um allt andlitið, það er samt spurning...)
núverandi eftirsjá: að hafa verið löt í janúar
núverandi vonbrigði: að vita ekki meira í dag en í gær

núverandi skemmtun: er að fara í bíó í kvöld, memoirs of a geisha á þýsku (spurning hvort það teljist sem skemmtun eða ekki?)
núverandi ást: fjölskylda og vinir sem ég sakna sárt

núverandi staður: Max Planck, Deutscher Platz, Leipzig.
núverandi bók: Guns, Germs and Steel eftir Jared Diamond
núverandi bíómynd: Memoirs of a Geisha, á þýsku
núverandi íþrótt: einstaka ferð á hjóli til og frá vinnu, samt fátítt í þessum kulda
núverandi tónlist: allt í i-podnum

núverandi lag á heilanum: Cold girl fever með Nationals
núverandi blótsyrði: sjæse

núverandi msn manneskja: Allir farnir held ég
núverandi desktop mynd: Mynd af mér og Helgu systur sem tekin var í Edinborg fyrir mörgum arum þegar ég var ung og fögur
núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Fara í bíó með kollegum, er samt ekki alveg alveg viss (á maður að borga sig inn á mynd sem maður skilur ekkert í? Og er eitthvað vit í því að sjá japanskar geishur segja "ja, ja, herr Rolf, du bist wunderschön, auf widersehen.." maður spyr sig.

núverandi manneskja sem ég er að forðast: bossinn
núverandi hlutir á veggnum: Er nýflutt á nýjan stað og er ekki búin að hengja neitt upp, en hér hanga í kringum mig hengur kort af Salomon eyjum, dagatöl og ýmsir erfðafræði pósterar.

mánudagur, janúar 30, 2006

Nýtt ár og ný íbúð


kinverskt nyar
Originally uploaded by austurfari.
Ég er loksins búin að ákveða mig með íbúðarmál. Ætla að flytja í íbúðina litlu í Reudnitz, sem er ekki eins skemmtilegt hverfi og ég bý í núna, en samt ekki svo langt í burtu. Íbúðin er mjög fín, ég fæ að halda eldhúsinu gegn því að mála og ég er búin að fá mannskap í það nú þegar ;) Ég má meira að segja flytja inn næstu helgi, sem er æði.

Annars fór ég í skemmtilegt partý á laugardaginn, kínverskt áramótapartý hjá Kun. Þar fögnuðum við 4350 (minnir mig) ári hjá kínverjum og Kun var búinn að biðja alla að mæta í rauðum fötum sem boðar víst mikla lukku. Ég held ég hafi nánast verið sú eina sem mætti í rauðum fötum, enda átti ég ekki í vandræðum með það þar sem rauður er minn uppáhalds litur (amk. í fötum). Svo ég mætti í rauðu centrum-pilsi og rauðum rúllukragabol við og vakti mikla athygli og lukku ;) Á því von á mikilli lukku það sem eftir er árs, enda veitir ekki af eftir hrakföll síðustu viku. Ég fór til lögreglunnar á föstudaginn með hinni óheppnu stúlkunni og gáfum skýrslu, áhugavert að lenda í svona sakamáli hér í Leipzig og enn áhugaverðara að heimsækja lögreglustöðina!

Í dag flytur inn nýr meðleigjandi, vona að hann sé skemmtilegur, ekki verra ef hann er sætur og einhleypur líka, hohohoho.

Hér er áframhaldandi frost og fróðir menn segja að þetta sér einn kaldasti vetur í manna minnum hér. Ég er alveg að gefast upp á þessum kulda. Sem betur fer er þó bjart og sólin skín flesta daga, jibbí.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Allt að gerast

Nú styttist í að Agla, Elín og Guðbjörg komi í heimsókn :) Get ekki beðið, það verður ótrúlega gaman að fá þær. Vildi bara hafa þær lengur, getiði ekki komið á miðvikudeginum frekar stúlkur??? sem betur fer er búið að hlýna hér svo þið þurfið ekki að hafa verulegar áhyggjur. Ég reyni svo að hafa partýið góða voða skemmtilegt...

Gærdagurinn var glataður, næstum 150evrum var stolið úr veskinu mínu þegar ég fór í hádegismat. Um 12 þús. krónur. Sem er miiiikill peningur hér, ömurlega fúlt. Var nýbúin að taka út svo mikinn pening til að kaupa hluti fyrir nýju íbúðina mína. En það verður að bíða betri tíma, ég er fegin að þeir tóku ekki allt veskið með öllum kortum í. Það hefði verið mjög fúlt.

Í kvöld fer ég að hitta fólkið sem býr í tilvonandi íbúðinni minni, ég ætla að kaupa af þeim eitt stykki eldhúsinnréttingu! Því hér tíðkast það ekki að eldhúsinnréttingar fylgi með íbúðum, alveg fáránlegt. Hlakka til að sjá íbúðina aftur.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Alvarlegur doktorsnemi

Jæja, þá er ég loksins búin að semja texta fyrir heimasíðuna okkar, ef þið smellið á titilinn getið þið séð hvað ég er að gera hér hjá Max Planck :) Ég var svo óánægð með myndina sem þeir tóku af mér í multimedia deildinni að ég valdi bara þessa í staðinn, gömlu góðu passamyndina, ekkert að því að yngja sig aðeins upp, enda ekki vanþörf á þar sem 30 ára afmælisdagurinn nálgast óðfluga.

Það er búið að hlýna örlítið í Leipzig sem betur fer, vona að þetta kuldakasti komi ekki aftur, sérstaklega ekki þegar ég fæ gestina mína von bráðar :)

Ég er búin að ákveða að taka íbúðina fínu sem ég birti myndir af, mun flytja 1. mars. Fyrir þá sem vilja koma í heimsókn verður alltaf pláss í nýju fínu íbúðinni minni, keypti einmitt gestabedda í gær, svo það er nóg pláss.

mánudagur, janúar 23, 2006

-14 gráður

Hef sjaldan á ævinni upplifað annan eins kulda. Þetta er óviðráðanlegur kuldi, engin íslensk ull getur verndað mann fyrir þessum kulda. Manni verkjar í líkamann að ganga úti, það þurfa allir líkamspartar að vera huldir, meira að segja andlitið. Held að lungun frjósi hreinlega ef maður andar að sér þessu kalda lofti í meira en korter. Þeir ættu að gefa frí í dag og næstu viku þar sem þetta mun halda áfram. Ekki heilbrigður kuldi, það ætti að banna svona frost. Ég tók af mér vettlingana í 1 mín. á leið í vinnu til að skipta um lag í i-podnum mínum, það var eins og að stinga hendinni ofan í frystikistu, ég gat varla notað fingurna til að skipta um lag. Sjæse segi ég bara á góðri þýsku.

Er enn að brjóta heilann um hvað ég á að gera í íbúðarmálum. Get bara ekki ákveðið mig, hvort ég vilji taka þessa íbúð eða reyna að fá aðra í mínu hverfi. Veit ekki. Verður að koma í ljós í dag.

laugardagur, janúar 21, 2006

Íbúð


stofan
Originally uploaded by austurfari.
Mér stendur þessi íbúð til boða. Hún er æðisleg, ótrúlega björt með mörgum stórum gluggum, með upprunalegum viðargólfum, fallegum hurðum, svölum, garði og baðkari. En.... hún er ekki í besta hverfinu, hverfinu sem ég bý í núna og elska að búa í, þar sem allir barirnir eru (sem ég heimsæki ansi oft), og hún er dýr. Dýr miðað við hverfið sem hún er í. Þannig að ég veit ekki hvað ég vil gera. Gallinn við hverfið sem ég bý í núna er að það er nánast hvergi hægt að fá netið hér, eða sem sagt góða tengingu. En það er hægt í þessu hverfi. Bossinn minn býr í sama húsi sem er fyndið, en heppilegt upp á það að gera að hann sagðist ætla að gefa míó að borða þegar ég er í burtu gegn því að ég gefi hans köttum að borða þegar þau eru í burtu. Svo það fylgja þessu kostir og gallar, helsti gallinn er staðsetningin. Mig langar svo að búa áfram í sudvorstadt. Damn, veit ekki hvað ég á að gera.

Í gær heimsótti ég kollega í mjög fína íbúð. Í sudvorstadt. Borgar aðeins meira en ég myndi gera, þetta var risíbúð með geðveiku útsýni yfir borgina. Öllum finnst þetta of dýrt miðað við hverfið, þannig að ég efast. En hún er svo kósý, finnst ykkur ekki? Það er hægt að skoða fleiri myndir af henni ef þið smellið á myndina (held ég)!

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Do you have cows in Iceland?


cow
Originally uploaded by austurfari.
Ég fékk þessa spurningu tvisvar sama dag í vikunni. Furðulegustu spurningar sem maður fær um landið sitt, eru ekki kýr alls staðar???

Ég er enn að jafna mig eftir jólafríið, vinn ekki nógu mikið, er ekki nógu dugleg og er með eilíft samviskubit. Hvar endar þetta? Ætli maður geti einhvern tíma verið algerlega sáttur við afköst í lok vinnudags? Ég get ekki einu sinni samið stutta lýsingu á verkefninu mínu sem bíður eftir að komast á heimasíðu Max Planck. Hvernig er hægt að auka afköst í vinnu??? Örugglega til e-r snilldar bandarísk bók um það.

Annars er það að frétta að búið er að spá 20 stiga frosti um helgina. Þá verður gaman að vera í köldu köldu íbúðinni í köldu köldu borginni.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Fyrirlestur


kvidi
Originally uploaded by austurfari.
Er búin að vera á fullu undanfarna daga að undirbúa fyrirlestur fyrir morgundaginn. Ætli þetta verði ekki lengsti fyrirlestur sem ég hef haldið á ævi minni, eða um klukkutími. Þetta er úr mastersverkefninu mínu og ég vildi auðvitað að ég hefði getað unnið hann miklu betur, en ég hafði ekki svo langan tíma. Vona að þau deyi ekki úr leiðindum að hlusta á mig í svo langan tíma, annars held ég að það gæti orðið hin mesta skemmtun hvað ég verð stressuð, úff! Er ansi kvíðin, en ég bara vona að ég komist í gegnum þetta lifandi... Er eiginlega alveg búin með hann núna, ætla að lesa hann einu sinni yfir í dag og á morgun, svo verð ég voða ánægð þegar þetta allt er búið. Þar til það kemur að næsta....

Annars skín sólin hér eins og flest aðra daga, stillt fallegt veður, yndislegt. Ég hlusta á Sufjan Stevens sem er líka yndislegur og finn kvíðan líða úr mér, mmmmmmm. Ætla heim til Míó, vildi að ég gæti tekið hann með mér í göngutúr í þessu góða veðri. Hann er allur að braggast, en er enn voða háður mér og finnst leiðinlegt þegar ég er lengi í burtu. Sambýlingar mínir eru þó ansi ánægðir með hann (enda er hann ekki farinn að sýna sínu verstu hliðar) svo ég hef ekki eins miklar áhyggjur af honum heima :) Þeim finnst hann mjúkur eins og kanína og voða skemmtilegur, sem hann er auðvitað :)

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Eilífur innikuldi

Verð aðeins að fá smá útrás áður en ég byrja að vinna í fyrirlestrinum... flest ykkar hafa heyrt af sambýliskonu minni hér í Leipzig sem gerir allt sem í valdi sínu stendur til að spara hitann í íbúðini okkar. Þegar ég kom á mánudaginn sagði ég henni að ég yrði í íbúðinni aðeins í nokkra daga og að ég myndi borga meira fyrir að hafa hitann á öllum stundum. Hún virtist skilja þetta og samþykkja, sérstaklega þegar ég minnti hana á að ég var ekkert heima í desember og var þar af leiðandi ekkert að nota kyndinguna. Já, þetta skildi hún vel, ekkert mál að hafa hitann á. Þetta virtist virka í u.þ.b. tvo daga, en einn daginn þegar ég kom seint heim að kvöldi þá var slökkt á hitanum en hún var fljót að kveikja á honum aftur þegar hún heyrði mig koma inn. Pirrandi, en ok, hún kveikti þó á hitanum. Svo í gær var ég með matarboð fyrir prímatastelpurnar mínar og kveikti á hitanum í eldhúsinu (þar er vanalega slökkt á kyndingunni öllum stundum, sem og inni á baði). Korteri seinna var hún búin að slökkva á ofninum þar, svo ég kveikti aftur og ætli þetta hafi ekki farið svona nokkrar umferðir þar sem hún slökkti en ég kveikti aftur á ofninum. Þetta hefur greinilega farið svona illa í hana, þessi vilji minn að bjóða gestum að vera í hlýju eldhúsi, að um nóttina vakna ég upp við það að það er við frostmark í herberginu mínu. Engin hiti, búið að skrúfa fast fyrir allan hita (aðal hitarofinn er inni hjá henni svo hún hefur algera stjórn yfir hitanum í allri íbúðinni). Míó vakti mig með veiku mjálmi og var að reyna að hlýja sér upp við mig, hann lagðist ofan á mig og ég fann að hann skalf af kulda greyið. Svo um morguninn var enn nístingskuldi í herberginu svo ég fór og bankaði hjá einræðisherranum. Þar sat hún við skrifborðið sitt í þykkri hettupeysu með húfu og trefil (kannski vettlinga líka) og virtist afar ánægð með kuldann og hitarofann sem stilltur var á 0. Held hún þjáist af einhvers konar hitafælni. Ætti virkilega að fara til sálfræðings, eða að búa ein. Ég er að missa vitið af pirringi og kulda, grrrrrrrrr.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Aftur til Leipzig

Þá er ég komin aftur "heim". Til Leipzig. Ferðin gekk ágætlega með Míó, en ég dauðvorkenndi greyinu, tólf tímar í búrinu, uppdópaður og ringlaður. Hann mjálmaði nánast stanslaust í lestinni í fjóra og hálfa klukkustund, ég hélt ég myndi ekki halda þetta út ég vorkenndi honum svo mikið. En við komumst á leiðarenda að lokum, eftir 12 tíma ferðalag. Ég var ekki einu sinni spurð um pappírana þegar ég kom til landsins, gekk bara með hann í gegnum tollinn eins og hvern annan farangur. Enda engan starfsmann að sjá.

Keypti svið og harðfisk og hangikjötsálegg handa kollegum mínum. Ætla að bjóða þeim að smakka séríslenskan mat í dag. Býst við að flestir verði óðir í að smakka sviðið, hálfan kindahaus með auganu og öllu. Namminamm, eins gott að þeir borði þetta því ég legg mér ekki svið til munns lengur. Ónei. Hins vegar vona ég að harðfiskurinn falli heldur ekki í kramið þar sem mér finnst hann enn mikið lostæti og gæti vel hugsað mér að gæða mér á honum sjálf ;) Býst við að hangikjötið á flatkökunum verði vinsælast, enda afar bragðgott sama af hvaða þjóðerni þú ert (eða hvað?).

Nú byrjar samviskubitið aftur sem ég var reyndar afar fegin að vera laus við. Samviskubitið yfir að skilja Míó eftir einan heima. En mér til huggunar bý ég með tveimur öðrum sem geta haldið honum félagsskap meðan ég er í burtu, amk stundum.

Það var mjög gaman að koma í vinnuna aftur, ég er svo ánægð með þetta fólk allt sem ég er búin að kynnast hér. Það var ekkert sérlega gaman að koma í íbúðina aftur, reyndar var Lukas búinn að hita herbergin mín svo það var afar ljúft. En samt verða þau aldrei eins hlý og heima, því heima er auðvitað alltaf best...