Eilífur innikuldi
Verð aðeins að fá smá útrás áður en ég byrja að vinna í fyrirlestrinum... flest ykkar hafa heyrt af sambýliskonu minni hér í Leipzig sem gerir allt sem í valdi sínu stendur til að spara hitann í íbúðini okkar. Þegar ég kom á mánudaginn sagði ég henni að ég yrði í íbúðinni aðeins í nokkra daga og að ég myndi borga meira fyrir að hafa hitann á öllum stundum. Hún virtist skilja þetta og samþykkja, sérstaklega þegar ég minnti hana á að ég var ekkert heima í desember og var þar af leiðandi ekkert að nota kyndinguna. Já, þetta skildi hún vel, ekkert mál að hafa hitann á. Þetta virtist virka í u.þ.b. tvo daga, en einn daginn þegar ég kom seint heim að kvöldi þá var slökkt á hitanum en hún var fljót að kveikja á honum aftur þegar hún heyrði mig koma inn. Pirrandi, en ok, hún kveikti þó á hitanum. Svo í gær var ég með matarboð fyrir prímatastelpurnar mínar og kveikti á hitanum í eldhúsinu (þar er vanalega slökkt á kyndingunni öllum stundum, sem og inni á baði). Korteri seinna var hún búin að slökkva á ofninum þar, svo ég kveikti aftur og ætli þetta hafi ekki farið svona nokkrar umferðir þar sem hún slökkti en ég kveikti aftur á ofninum. Þetta hefur greinilega farið svona illa í hana, þessi vilji minn að bjóða gestum að vera í hlýju eldhúsi, að um nóttina vakna ég upp við það að það er við frostmark í herberginu mínu. Engin hiti, búið að skrúfa fast fyrir allan hita (aðal hitarofinn er inni hjá henni svo hún hefur algera stjórn yfir hitanum í allri íbúðinni). Míó vakti mig með veiku mjálmi og var að reyna að hlýja sér upp við mig, hann lagðist ofan á mig og ég fann að hann skalf af kulda greyið. Svo um morguninn var enn nístingskuldi í herberginu svo ég fór og bankaði hjá einræðisherranum. Þar sat hún við skrifborðið sitt í þykkri hettupeysu með húfu og trefil (kannski vettlinga líka) og virtist afar ánægð með kuldann og hitarofann sem stilltur var á 0. Held hún þjáist af einhvers konar hitafælni. Ætti virkilega að fara til sálfræðings, eða að búa ein. Ég er að missa vitið af pirringi og kulda, grrrrrrrrr.
2 Comments:
Burrrrrr :S Hlakka til að koma í kuldann ;)
Hvernig gengur að finna nýja íbúð???
h... herfan!
Skrifa ummæli
<< Home