Komin heim frá Berlín, Leipzig, Hamborg og Potsdam!
Verð að byrja á því að segja að viðtalið gekk það vel að mér var boðin staða hjá þeim. Úff, þetta setur mig í mjög erfiða stöðu, sá á kvölina sem á völina og kvölin er mikil. Ég verð að punkta niður hjá mér kosti og galla við báða staðina. Varðandi námið, borgirnar, landið, umhverfið og allt það. Þetta er virkilega erfið ákvörðun. Reyndar hélt ég að þeir myndu segja nei eftir viðtalið... en svartsýni mín hefur áður villt um fyrir mér. Svo nú þarf ég að gera upp hug minn, verst að Aggi er enn í fríi og getur ekki ráðlagt mér. En ég tek ekki ákvörðun fyrr en ég tala við hann.
Kom heim í gær og hef ekkert lært í dag. Strax byrjað. Letin eða frestunaráráttan, veit ekki hvort þetta er, kannski bæði. Ætla að taka smá skorpu núna í þrjá tíma og velta svo möguleikunum fyrir mér í kvöld. Vega og meta.
Annars var mjög gaman í Þýskalandi, fyrir utan svolítið stíft túristaprógram sem frieda hafði planað! Fór í viðtalið á föstudeginum sem stóð yfir frá tíu til fjögur. Sex starfsmenn, bæði post-dokkar og doktorsnemar tóku viðtöl og svo Mark Stoneking að e-u leyti. Eyddi svo síðdeginu í borginni með Friedu, og leist vel á hana. Falleg hús, mikið um kaffihús og veitingastaði. Sem er alltaf mikilvægt, hehe. Á laugardeginum fórum við til Potsdam í dagstúr, og um kvöldið eyddum við sex ljúfum klukkutstundum á Live-8 tónleikum... frekar erfitt að standa kyrr í sex tíma og horfa á bönd sem eru ekki í uppáhaldi, en það var þó vissulega gaman að vera viðstödd á þessum merka viðburði.
Á sunnudeginum fórum við til Hamborg að heimsækja Jens, kærasta Friedu. Mikill afslöppunardagur, eyddum mörgum tímum á kaffihúsum að sötra bjór, þar á meðal á svokölluðum strand-bar, sem er nýjasta tískan í Evrópu og væri kannski hægt að innleiða hér á landi, fyrir utan blessaða kalda veðrið. Gistum þar eina nótt og fórum aftur til Berlínar á mánudeginum, hittum Kerstin sem var líka að læra með mér í stockton, ljúfur dagur líka. Skemmtileg ferð og mjög gott að fá frí frá tölvunni og verkefninu. Sem bíður eftir mér núna.