föstudagur, júlí 29, 2005

Brottför

Jæja, búin að redda flugmiðum með hjálp minnar innilegu vinkonu Lilju :):):) Er nú komin með flugmiða í hendurnar, fer 26. ágúst og flýg til Köben, eyði helginni þar með stelpunum (tja, eða í Malmö) og flýg svo með Ryan Air til Berlínar, verð að ganga frá því fljótlega. Frieda mín kæra þýska vinkona hugsar mjög vel um mig og er búin að senda vin sinn á lestarstöðina þegar ég kem, til að taka á móti mér og hjálpa mér með farangur! Það er bara hugsað um mann eins og ósjálfbjarga smábarn... en, það verður gott að fá hjálp og kynnast einhverjum til að geta drukkið kaffi/bjór með fyrstu dagana ;) Fer svo heim 21. desember.

Góða verslunarmannahelgi

Agla >1950


Agla >1950
Originally uploaded by austurfari.
Agla, dreifing nafnsins þíns er gerólík nafni Sólu! Þeir eru hrifnari af því í Skaftafellssýslum heldur en annars staðar ;)

Sólrún >1950


Sólrún >1950
Originally uploaded by austurfari.
Sóla, hér er nafnið þitt, algengara á vesturhluta landsins og svo aftur í Múlasýslum, en þeir eru ekki hrifnir af því í Skaftafellssýslum!

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Nafnið mitt kortlagt

Á fullu í kortagerð, hér sjáið þið hvar nafnið mitt er algengast (byggir á tíðni nafnsins eftir landssvæðum), þar sem dökku reitirnir eru er það algengast og sjaldgæfast þar sem ljósu og hvítu reitirnir eru ;) Greinilega ekki hrifnir af nafninu á vestjörðum...
Get gert fleiri kort handa ykkur ef þið viljið :)

laugardagur, júlí 23, 2005

Míó sæti


.
Sætasti kisinn í bænum ;)

Míó sæti

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Tilvonandi hús mitt í Leipzig?

Það er búið að bjóða mér herbergi í þessu húsi, hvernig líst ykkur á? Mér finnst það voða flott, getið séð fleiri myndir á myndasíðunni :)

Tíminn líður hratt...

Það styttist í skil, stefni á að skila 1. ágúst. Er að fara að skrifa umræðukaflann, næstu tvo þrjá daga. Svo inngang, svo er þetta næstum komið. Trúi því varla... að þetta sé að fara að gerast. Svo styttist í brottför, fer líklega í kringum 25 ágúst. Er kannski komin með herbergi í Leipzig, sem er rétt hjá Max Planck stofnuninni. En þetta er í frekar lítilli íbúð, aðeins 75 fermetrar og þrír einstaklingar deila þessum fáu fermetrum. Herbergið sjálft er um 16 fermetrar, svo er sameiginlegt eldhús og litlar svalir og baðkar. Í raun allt sem þarf (nema kannski næði). Hlakka til að prófa þetta... hlakka eiginlega meira til í augnablikinu að skila ritgerðinni.

Þið munið svo að taka frá 6. ágúst ;)

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Loksins búin að ákveða mig 100%. Eins og titillinn gefur til kynna þá er ég að fara til Leipzig. Búin að senda skólunum svar og búin að hafna Fulbright styrknum og búin að láta aumingja strákinn vita í State College að ég ætla ekki að taka íbúðina með honum. En ég fékk strax svar frá prófessornum í Penn State og hann sagði að ég ætti áreiðanlega eftir að njóta þess að vera í Max Planck og að skólarnir væru í samstarfi :) Mjög kúl.

Þá er bara að klára ritgerðina...

fer í kringum 25 ágúst held ég.

Hlakka til, held þetta hafi algerlega verið rétt ákvörðun.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Lokaákvörðun nálgast

Komin heim frá Berlín, Leipzig, Hamborg og Potsdam!

Verð að byrja á því að segja að viðtalið gekk það vel að mér var boðin staða hjá þeim. Úff, þetta setur mig í mjög erfiða stöðu, sá á kvölina sem á völina og kvölin er mikil. Ég verð að punkta niður hjá mér kosti og galla við báða staðina. Varðandi námið, borgirnar, landið, umhverfið og allt það. Þetta er virkilega erfið ákvörðun. Reyndar hélt ég að þeir myndu segja nei eftir viðtalið... en svartsýni mín hefur áður villt um fyrir mér. Svo nú þarf ég að gera upp hug minn, verst að Aggi er enn í fríi og getur ekki ráðlagt mér. En ég tek ekki ákvörðun fyrr en ég tala við hann.

Kom heim í gær og hef ekkert lært í dag. Strax byrjað. Letin eða frestunaráráttan, veit ekki hvort þetta er, kannski bæði. Ætla að taka smá skorpu núna í þrjá tíma og velta svo möguleikunum fyrir mér í kvöld. Vega og meta.

Annars var mjög gaman í Þýskalandi, fyrir utan svolítið stíft túristaprógram sem frieda hafði planað! Fór í viðtalið á föstudeginum sem stóð yfir frá tíu til fjögur. Sex starfsmenn, bæði post-dokkar og doktorsnemar tóku viðtöl og svo Mark Stoneking að e-u leyti. Eyddi svo síðdeginu í borginni með Friedu, og leist vel á hana. Falleg hús, mikið um kaffihús og veitingastaði. Sem er alltaf mikilvægt, hehe. Á laugardeginum fórum við til Potsdam í dagstúr, og um kvöldið eyddum við sex ljúfum klukkutstundum á Live-8 tónleikum... frekar erfitt að standa kyrr í sex tíma og horfa á bönd sem eru ekki í uppáhaldi, en það var þó vissulega gaman að vera viðstödd á þessum merka viðburði.

Á sunnudeginum fórum við til Hamborg að heimsækja Jens, kærasta Friedu. Mikill afslöppunardagur, eyddum mörgum tímum á kaffihúsum að sötra bjór, þar á meðal á svokölluðum strand-bar, sem er nýjasta tískan í Evrópu og væri kannski hægt að innleiða hér á landi, fyrir utan blessaða kalda veðrið. Gistum þar eina nótt og fórum aftur til Berlínar á mánudeginum, hittum Kerstin sem var líka að læra með mér í stockton, ljúfur dagur líka. Skemmtileg ferð og mjög gott að fá frí frá tölvunni og verkefninu. Sem bíður eftir mér núna.