þriðjudagur, maí 31, 2005

Krónískur kvíði

Úff, mér líður eins ég eigi aldrei eftir að klára þessa blessuðu ritgerð. Það er svo ótrúlega mikið eftir og tíminn gersamlega flýgur áfram. Hvernig á ég að fara að þessu? Ég hlakka svo til þegar ég er búin að klára (ef ég klára einhvern tíma!) og get litið til baka á þessar stress-vikur og hugsað "oh, hvað ég er fegin að vera ekki á þessum stað núna". En þá verður kannski tekið við nýtt stress, nýr kvíði. Sjæse...

Fer í síðustu læknisheimsóknina í dag. Lokaskoðunin. Fæ niðurstöður úr prófum. Einu prófin sem ég hef farið í þetta misseri.

Sendi prófessorum í Max Planck email í morgun. Vil að þeir fari að svara mér. Nenni ekki að lifa í þessari óvissu lengur. En annars eru miklar líkur á að ég fari bara vestur... sveiflast reyndar svolítið til með þetta. Maður vill annað þegar maður er uppi í rúmi á kvöldin í örygginu með Míó. Svo þegar maður vaknar virðist allt svo einfalt og auðvelt. Sem hægt og sígandi breytist í flókið og erfitt yfir daginn og verður að óendanlega óyfirstíganlegu rétt fyrir svefn.

Úff.

Núna er ekki komið hádegi, þannig að ég er bjartsýn og hlakka til að takast á við ný verkefni næsta vetur. En er samt afar áhyggjufull yfir ritgerðinni... vildi að ég gæti ráðið fólk í vinnu til mín sem gæti hjálpað mér að koma þessu öllu saman.

fimmtudagur, maí 26, 2005

skýrslur og spurningaflóð

Undirbúningur fyrir brottför hafinn. Þarf að skila ítarlegri læknaskýrslu til Fulbright (helst í dag, ég er auðvitað alveg á síðustu stundu), og þurfti því að fara í blóðprufu í morgun. Þeir eru ansi hnýsnir kanarnir, það þarf að gera á mér hin ýmsustu próf til þess að fullnægja forvitni þeirra, svo þetta endar með um fimm heimsóknum til lækna. Frekar mikil tímasóun og maður skilur ekki alveg tilganginn með þessu öllu. Hvað segir persónuvernd um málið? Er ekki mjög auðvelt að mismuna fólki á grundvelli þessara upplýsinga? Þeir spyrja meira að segja um sjálfsvígs tilraunir, hvort maður hafi reynt. Hver er svo heiðarlegur að segja satt og rétt frá því? "Yes, two attempts, both failed, I´m hoping for a better environment in the States since you hand out gun licences like candy" Álíka undarlegt og að láta fólk fylla út spurningarlista fyrir komu til landsins þar sem meðal annars er spurt hvort fólk ætli að fremja hryðjuverk... afar furðulegt að búast við hreinskilni við slíkum spurningum.

Jæja, ef ég ætla að komast út í nám verð ég víst að klára eitt stykki masters ritgerð. Best að byrja...

miðvikudagur, maí 25, 2005

Fyrsta færsla

Ætla að blogga þegar ég fer til útlanda, datt í hug að búa til síðuna núna þar sem ég hafði lítið annað betra að gera! Hér getið þið fylgst með mér í útlöndunum :)