fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Pabbapössun í Hagkaupum

Langt síðan síðast, en þetta verður stutt. Verð bara að heykslast á þessu uppátæki Hagkaupa að búa til sérstakt herbergi fyrir þreytta feður og unnusta á meðan konan sér um innkaupin. Hvers vegna í ósköpunum á konan að sjá um innkaupin? Af því það er svo rosalega gaman fyrir konur? Til hver í ósköpunum fara karlar þá með í búðina ef þeir geta ekki tekið ábyrgð á innkaupunum líka? Ég á ekki til orð. Svo var tekið viðtal við RÓTTÆKAN feminista um málið - einsog maður þurfi að vera róttækur feministi til að finnast svona lagað ekki í lagi.

Ég ætla ekki að versla í Hagkaupum þegar ég er heima á Íslandi. Mér finnst þetta ótrúlega gamaldags og karlrembuleg hugmynd.

föstudagur, október 05, 2007

Úr grein úr New York Times...

"For those who attempt it, the doctoral dissertation can loom on the horizon like Everest, gleaming invitingly as a challenge but often turning into a masochistic exercise once the ascent is begun. The average student takes 8.2 years to get a Ph.D.; in education, that figure surpasses 13 years. Fifty percent of students drop out along the way, with dissertations the major stumbling block. At commencement, the typical doctoral holder is 33, an age when peers are well along in their professions, and 12 percent of graduates are saddled with more than $50,000 in debt."

Úff!!! Maður ætti kannski að fara að líta í kringum sig eftir öðru starfi...

laugardagur, september 22, 2007

Glefsur



Er á leiðinni í bæinn að versla, á stefnumót við Nandini eftir klukkutíma svo ég ætla að nota tímann og skrifa smá glefsur úr ferðinni.

MATUR
Það sem við borðuðum mest og oftast var nshima, sem er e-s konar mjög úr maískorni, eins og grautur (http://en.wikipedia.org/wiki/Nshima). Þetta er borðað með höndunum og dýft í sósur og yfirleitt var annað hvort hægt að fá kjúkling eða fisk með. Ég held ég hljóti að hafa borðað hundruð kjúklinga og nokkra fiska, e-n veginn var kjúllinn betri, fiskur er aldrei eins góður og heima. Ég borðaði engar mjólkurvörur allan tímann og engin sætindi, en saknaði þess sárt. Í borgum og bæjum var hægt að kaupa bjór, og uppáhaldstegundin mín var MOSI, afar ljúffengur og léttur mjöður. Þegar við þurftum að elda sjálf var gott að hafa Cesare með í för, hann er góður kokkur og hafði gaman að því að elda, en allt sem hann eldaði var með e-s konar baunum, bökuðum baunum, nýrnabaunum, gulum baunum og égveitekkihvað baunum. Held mig langi ekki í baunir á næstunni. Þannig að úrvalið var afar takmarkað alltaf, mjög lítið um ávexti og grænmeti, ekki rétta árstíðin. Bananar voru nokkuð auðfundnir, en epli, appelsínur og annað var munaðarvara. Ég tók reglulega fjölvítamín til að verslast ekki upp þarna! Svo um leið og ég kom heim fór ég í búðina og fyllti ísskápinn af grænmeti, ávöxtum, mjólkurvörum og súkkulaði. En gat ekki notið þeirra fyrr en um miðja vikuna, mmmm hvað þetta var gott.

VEÐUR
Heitt á daginn, kalt á kvöldin. Það var skrýtið. Það var eins og skreppa til hitabeltislands á daginn og fara aftur heim til Íslands á kvöldin. Í byrjun ferðarinnar þurfti ég tvö teppi og svefnpoka á nóttunni, en á daginn var steikjandi hiti og þurrt loft, sem versnaði bara þegar líða tók á ferðina. Mér þótti erfitt að venjast hitanum, en það var alltaf gott að fá frí frá hitanum á kvöldin.

FERÐAFÉLAGARNIR
Einnig erfitt að venjast þeim! Það gekk á ýmsu milli mín og Cesare, en ég lærði jafnt og þétt að vera þolinmóð og láta hann ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Við ferðuðumst lítið með Mark og Brigitte, en mér fannst alltaf áhugavert að þau deildu alltaf einum skammti af hádegismat og kvöldmat. Mark er stór maður á alla kanta. Held að Brigitte hafi verið með aumingja manninn í srangri megrun allan tímann. Hún hefur greinilega töglin og hagldirnar í þessu sambandi. Þau ferðuðust um með fuglabók og þegar þau sáu áhugaverðan fugl merktu þau við hann í bókinni, stað og stund. Frekar fyndið.

Terry gædinn okkar og Chris bílstjórinn voru æði. Ég held ég hefði ekki lifað ferðina af án þeirra, alger yndi báðir tveir.

VINNAN
Er búin að lýsa henni þokkalega í síðasta pósti. Hún var oft erfið, en árangursrík, við bjuggumst aldrei við að safna 700 sýnum.

DÝR
Sáum fullt af stórum dýrum. Fórum einu sinni í þjóðgarð og þar sáum við gíraffa, sebrahesta, buffalo, impala, krókódíl og margt fleira. Mjög skemmtilegt. Sáum svo flóðhesta í Zambesi við eitt hostelið sem við gistum á, sáum fíla næstum síðasta daginn. Ótrúlega magnað að sjá þessi dýr í sínu náttúrulega umhverfi en ekki í dýragarði. Einnig var mikið um lítil dýr, köngulær og eðlur. Einn morguninn þegar ég var nývöknuð og var að klæða mig í bol fann ég fyrir e-u í hárinu á mér. Ég sat í rúminu með stýrurnar í augunum og kom við hárið á mér til að athuga hvað þetta var. Dettur þá ekki þessi lófastóra, loðna könguló í kjöltu mína. Ég öskra og stekk upp og köngulóin flúði. Ég þurfti ekkert kaffi þennan morguninn.

Jæja, nóg í bili... verð að fara í bæinn

E

þriðjudagur, september 18, 2007

Myndir


Jæja, búin að setja inn myndir á linkinn myndir III, undir albúmi sem heitir Zambía. Er búin að skrifa smá texta við nokkrar myndir, en á eftir að klára. Gleymdi að snúa við myndum, það er leiðinlegt, mig langar að finna annað form til að geyma myndir, mér leiðist þetta form.

Er enn heima að jafna mig, er mun skárri en ekki nógu góð til að fara í vinnuna... svo ég notaði tímann í dag til að setja myndir á netið, taka til og taka úr töskunum.

Kannski segi ég ykkur í stuttu máli hvað við vorum að gera þarna! Þetta er sem sagt doktorsverkefni Cesare sem hann mun vinna að næstu 4 árin líklegast. Við söfnuðum munnvatnssýnum úr fólki, alls fengum við um 700 sýni frá um 20 mismunandi "þjóðflokkum". Þetta er samvinnuverkefni með málvísindamanni (Koen Bostoen) sem hefur verið að skoða tungumál í Western Province í mörg ár. Það eru töluð um 30 tungumál á þessu svæði, en í dag er eitt sameiginlegt tungumál, sem kallast Lozi. Lozi tungumálið kemur frá fólki sem fluttist til Zambíu fyrir 200 árum frá Lesoto og steyptu af stóli Lui konungsdæminu sem var þar fyrir. Lesoto fólkið réði ríkjum á þessu svæði í aðeins 40 ár, en þá náði Lui fólkið yfirráðum aftur. En af e-um ástæðum hélt fólkið áfram að nota Lozi tungumálið sem kom frá Lesoto, og ein tilgáta segir að Lui fólkið drap alla Lesoto menn en héldu á lífi konunum og giftust þeim. Þannig hafa konurnar kennt börnum sínum Lozi tungumálið og þar af leiðandi hóf fólkið að nota Lozi sem sameiginlega tungu. Það er hægt að kanna þessa tilgátu með því að skoða genin, td. með því að skoða hvort mtDNA sem erfist í kvenlegg, sé skyldara Lesoto mtDNA heldur en mtDNA sem finnst í Zambíu, eða annars staðar í Afríku.

Síðan vill hann einnig skoða hina svokölluðu "Bantu expansion". Bantu fólkið á rætur að rekja til Congo/Nígeru fyrir 2-3 þúsund árum. Bantu fólkið var landbúnaðarfólk sem hóf að flytjast suður til annara landa í Afríku, og gerði það að verkum að hirðingjahópar fluttust á jaðarsvæði og minnkuðu til muna. Það eru tvær greinar Bantu tungumála, vestur og austur, og í Zambíu finnast tungumál sem tilheyra báðum greinum. Ekki er nákvæmlega vitað hvort þessar greinar eru tvær aðskildar greinar sem fylgdu tveimur aðskildum hópum, eða hvort eitthvað genaflæði hafi átt sér stað á milli hópa sem töluðu tungumál sem tilheyra báðum greinunum. Svo þetta er ein önnur tilgáta sem þau vilja prófa.

Þriðja tilgátan snýr að Koisan tungumálum, tungumálum með svokölluðum "klick" hljóðum. Í dag eru mjög fáir hópar í Zambíu sem nota Koisan tungumál, en nokkur tungumál sem eru ekki Kosian, hafa tekið upp click hljóð. Svo þau vilja skoða hvernig þetta hefur átt sér stað, er það vegna erfðablöndunar við aðra hópa, eða eingöngu vegna kynna hópa sem tala ekki Koisantungumál við hópa sem tala Koisan tungumál, án nokkurrar blöndunar?

Þetta verða þrjár meginspurningar í verkefni Cesares og vonandi tekst honum að svara þeim eftir alla þessa erfiðisvinnu. Ég ber muuuun meiri virðingu fyrir svona vettvangsrannsóknum og sýnasöfnun en áður, þetta er mjög erfitt starf! Erfiðast var að sannfæra fólkið um að gefa sýni, því það hræðist hvíta manninn og heldur að við séum í tengslum við djöfulinn. Það heldur að við förum með sýnin til Þýskalands, gerum galdur á þeim sem leiðir til dauða þeirra sem gáfu sýni. Stundum þurftum við tvo tíma í að svara spurningum. En yfirleitt fengum við einn þriðja hluta þeirra sem á okkur hlustuðu til að gefa sýni, stundum vildi enginn gefa sýni. Jesús hvað ég var orðin þreytt á að hlusta á Cesare útskýra verkefnið á endanum, ég held ég vilji aldrei aftur heyra hann lýsa því!!! En þetta gekk vonum framar og við náðum að safna mun fleiri sýnum en við áttum von á.

Meira síðar...

föstudagur, september 14, 2007

KOMIN HEIM :)

var að koma heim, jibbííí - ferðalagið heim gekk vel, og ferðalagið í heild sinni, tók yfir 1000 myndir, verð að velja úr og skella þeim fljótlega á netið. Meira seinna.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Farin til Afríku



Jæja, þá verð ég komin til Sambíu á morgun. Legg af stað síðdegis í dag, tökum lest til Frankfurt og fljúgum þaðan til Addis Ababa, og svo þaðan til Lusaka. Verð komin hálf þrjú á morgun til Lusaka, höfuðborgar Sambíu. Vona að allt ferðalagið gangi vel, og að allur farangur komist á leiðarenda.

Ég mun sennilega ekkert láta heyra í mér fyrr en eftir sex vikur þegar ég kem aftur til Leipzig. Kem aftur 14. september.

Svo ég kveð í sex vikur, hafið það gott elskurnar ;)

þriðjudagur, júlí 31, 2007

ÞRÍR DAGAR

í sambíu............ úúúú

er orðin veeeerulega spennt - var í bænum í dag að versla meira, djöfull elska ég útivistadót. Því miður hægt að taka takmarkað með. Keyptum tjald, lítið tveggja manna tjald fyrir mig og Cecare - eins gott að við verðum ekki miklir óvinir í ferðinni. Búin að kaupa mér lítinn ferðakodda, lítið ferðahandklæði (næstum á stærð við spilastokk), lítinn og léttan svefnpoka, og lítið og létt sænguver - sérhannað í ferðalagið, og ég veit ekki hvað annað lítið-ferða ég er búin að kaupa. Held ég hafi aldrei verið eins vel undirbúin fyrir ferðalag. En þetta eru líka sérstakar aðstæður, engir ferðamenn, staðsetningar gefnar upp í hnitum og hvergi símasamband. Hvað þá netið. Þannig að ég verð ekki við í sex vikur, fjarri góðu gamni. Við erum heppin ef við finnum vegi þarna. Las frétt frá sambíu á netinu um það að heilt þorp þurfti að flýja heimili sín vegna daglegra árása fíla! Eheh, best að forðast það þorp. Samt væri nú gaman að koma auga á villta fíla e-s staðar, og ljón, og krókódíla :)